Í OA samtökunum þarf enginn að koma fram undir nafni og því birtist þessi frásögn nafnlaust. Ég er matarfíkill sem lýsir sér þannig að ég er vanmáttug þegar kemur að mat, sérstaklega sykri og skyndibitafæði.
Reynslusögur
Reynslusögur geta hjálpað okkur að átta okkur á hvort að matarfíkn eigi við um okkur. Lesið í gegnum sögurnar og lærið meira um sjúkdóminn.
Líf án sektarkenndar
Ég er þakklát ofæta fyrir að hafa í öllu myrkrinu ratað inn í OA. Frá unglingsárum hefur líf mitt, þar til nú, snúist um að á morgun fer ég í megrun, eða í dag er ég í megrun og allan tímann át ég stöðugt, var hömlaus nartari og hafði sektarkennd.
Í OA fann ég í fyrsta sinn kærleika sem virkaði til að stoppa ofátið. Ég hafði verið að skoða vefsíðu OA frá því í marsmánuði 2001 og hugsaði kannski er þetta eitthvað fyrir mig. Ég mætti svo á minn fyrsta fund í janúar 2002. Þar var fullt af ,,rugluðu” fólki, fólki sem er eins og ég!
Ég var svo heppin að vera gefið fráhald strax og hef verið í fráhaldi síðan. Fráhald er ekki megrun, heldur að borða skipulega máltíð 3-4 sinnum á dag einu sinni á diskinn. Með því að rjúfa fráhaldið fjórum sinnum á dag og borða án sektarkenndar, í mínu tilfelli venjulegan heimilismat, á ég í dag gott líf.
Líf í ofáti er ömurlegt, það snýst um einangrun frá öðrum, sífelldan ótta við vægðarlausa gagnrýni annarra. Staðreyndin er hins vegar sú að maður er sjálfum sér verstur, það ert þú sjálfur sem segir: Þú ert vonlaus, þú hefur engan viljastyrk. Í OA lærir maður að þetta snýst ekki um viljastyrk heldur það að setja fráhald frá mat í forgang, einn dag í einu. Þetta hefur tekist í 5 mánuði!
Mig skorti ekki viljastyrk þegar: Ég svelti mig í 70 daga. — Þegar ég fór í hvern megrunarkúrinn á fætur öðrum. Ég gat þetta allt á hnefanum en ég vissi ekki þá að ég væri með sjúkdóm, matarfíkn, og það er hægt að ná bata með hjálp OA. Það er hins vegar ekki til lækning en á meðan ég mæti á fundi og nota OA kerfið er ég heilbrigð, einn dag í einu.
Líf án sektarkenndar og vanlíðunar, er mikil gjöf og fyrir það er ég þakklát.
Fleiri reynslusögur
OA gaf mér nýtt líf
Þegar ég kom fyrst inn á fund hjá OA fyrir rúmum 21 mánuði síðan var ég skíthrædd. Ég var þá 27 ára, 135 kg (er 166 cm) og búin að fá gallsteina vegna neyslu á óhollum mat og sælgæti.