Hvað gera OA samtökin?

 

Við í OA samtökunum höfum fundið leið til að losna undan áþján ofáts með því að deila reynslu okkar og styðja hvert annað. Við bjóðum velkomna alla þá sem vilja losna undan matarfíkn. Við höfum engin þátttökugjöld. Hver deild er rekin með okkar eigin frjálsu framlögum og samtökin hafna allri utanaðkomandi fjárhagsaðstoð.

OA samtökin tengjast engum félagsskap öðrum, pólitískum, trúarlegum eða hugmyndafræðilegum og taka ekki afstöðu til málefna annarra en sinna eigin. Meginmarkmið okkar er að halda okkur frá hömlulausu ofáti og bera boðskap samtakanna til þeirra sem enn þjást af matarfíkn.

OA samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum í janúar árið 1960 og á Íslandi 3. febrúar 1982.

Saga OA á Íslandi

Allir eru velkomnir

Félagarnir í OA hafa orðið nokkrus vísari. Strax á fyrsta fundinum í samtökunum komumst við að því að við erum altekin hættulegum sjúkdómi. Við uppgötvuðum líka að geðheilbrigði, sjálfsöryggi og viljastyrkur, sem mörg okkar héldu sig hafa nóg af, hefur lítið að segja gegn honum.

Við komumst að því að orsakir sjúkdómsins skipta ekki höfuðmáli. Það sem skiptir mestu máli fyri okkur er þetta: Það er til þrautreynd, meðfærileg aðferð til að hafa hemil á sjúkdómi okkar.

12 spora samtök

Kerfi OA til bata er byggt á samskonar kerfi AA samtakanna. Við notum tólf reynsluspor þeirra og tólf erfðavenjur. Eina breytingin er að í stað orðanna “áfengi” og “alkóhólisti” setjum við orðin “matur” og “matarfíkill”. Eins og reynslusögur okkar bera vitni um er tólf spora kerfið jafn árangursríkt fyrir okkur eins og alkóhólista.

En getum við ábyrgst það að þú öðlist þennan bata? Svarið er einfalt: Ef þú vilt horfast í augu við sannleikann um sjálfan þig og sjúkdóminn. – Ef þú stundar fundi, tjáir þig og hlustar á aðra sem valið hafa þessa sömu leið til bata. – Ef þú kynnir þér rit okkar og AA samtakanna með opnum huga. – Og það sem mestu máli skiptir; ef þú ákveður að treysta þínum æðri mætti til leiðsögu í lífi þínu og fetar öll tólf reynslusporin eftir bestu getu, þá erum við sannfærð um að þú getir bæst í hóp þeirra sem náð hafa bata.

Hömlulaust ofát er líkamlegur, tilfinningalegur og andlegur sjúkdómur. Til að öðlast bata höfum við nokkrar tillögur, en minnumst þess að kerfið er byggt á andlegum grundvelli eins og fram kemur í sporunum tólf.

Við erum ekki klúbbur megrunaraðferða eða hitaeiningatalinga. Við temjum okkur fráhald frá ofátinu og með tímanum minnkar mataráhuginn að mun og yfirgefur okkur aðlveg í sumum tilfellum. Við þurftum að tileinka okkur alveg nýjan hugsunarhátt til að ráða við okkar innri óróa. – Að lifa lífinu í stað þess að láta berast með því. – Með öðrum orðum: Að taka upp nýja lífshætti.

Með þessa afstöðu að leiðarljósi fetum við tólf reynsluspor O.A. til bata og beinum sjónum okkar framhjá ofátinu í átt að heilsteyptum og fullgildum persónuleika. Þegar við tileinkum okkur reynslusporin tólf losnum við undan sjúkdómseinkennum ofátsins einn dag í einu. Þessum árangri náum við með því að gefast upp fyrir mætti sem er okkur æðri og því rækilegri sem uppgjöfin er þeim mun fullkomnara verður frelsi okkar frá matarfíkninni.

Sporin 12 (pdf)
Erfðavenjurnar 12 (pdf)
Starfsreglur OA (pdf)

12 spor OA

1.
Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart mat og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.

2.
Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.

3.
Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum.

4.
Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.

5.
Við játuðum misgjörðir okkar fyrir Guði, sjálfum okkur og annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.

6.
Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.

7.
Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.

8.
Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til að bæta fyrir þær.

9.
Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan.

10.
Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar viðurkenndum yfirsjónir okkar umsvifalaust.

11.
Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

12.
Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum hömlulausum ofætum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi