Getur þú ekki hætt að borða?

Hefur þú reynt mörg líkamsræktarátök og megrunarkúra en ferð alltaf í sama farið?

OA hefur lausn fyrir þig! Vertu velkomin á fund hjá okkur. Það er tekið vel á móti nýliðum á öllum fundunum í fundarskránni okkar.

ÖLL velkomin

Allir fundir einnig á ZOOM

Nýr ÓKEYPIS bæklingur á Íslensku
Hvar á ég að byrja?

Sjá heimasíðu OA Region 9 þýdda á “íslensku”

Heim – Ofátendur Nafnlaus svæði 9 (oaregion9.org) 

 

Taktu sjálfsprófið

Sjálfsprófið er mjög góð leið til þess að sjá hvort að OA sé fyrir þig.

Er matur vandamál?

Matarfíkn getur verið stórt vandamál í lífi fólks. OA samtökin hafa lausn við þessu vandamáli sem byggir á 12 spora kerfi AA samtakanna. OA félagar eru karlar og konur á öllum aldri um allan heim sem eiga sér þá ósk heitasta að halda sig frá matarfíkn og vilja bera boðskap samtakanna um bata áfram til þeirra sem enn þjást.

Ekki megrun!

OA er ekki megrunarklúbbur og setur engin skilyrði um þyngdartap. Með því að viðurkenna vanmátt okkar gagnvart mat, og að kasta frá sér þeirri hugsun að maður þurfi á “viljastyrk” að halda til að stjórna áti sínu, verður maður fær um að halda sig frá ofáti – einn dag í einu.

Matarfíkn?

Á þessari síðu getur þú komist að því hvort þú eigir við matarfíkn að stríða. Hér er hægt að taka sjálfspróf til að kanna hvort OA sé eitthvað fyrir þig. Einnig er hægt að lesa reynslusögur hérna á síðunni til að sjá hvort þú þekkir eitthvað í sögu þeirra OA félaga sem hafa sagt sögu sína.

Trúnaður

Ef þú vilt vita meira, ert þú
boðin/n velkomin/n á fund hjá OA. Á fundum er algjör trúnaður, þ.e. þegar fundinum er lokið er ekki rætt um hverjir voru á fundunum eða hvað þeir sögðu þar. Það kostar ekkert að fara á fundi og þú ert
velkomin/nn á hvaða fund sem er á fundarskránni okkar.

Reynslusögur

Líf án sektarkenndar

Ég er þakklát ofæta fyrir að hafa í öllu myrkrinu ratað inn í OA. Frá unglingsárum hefur líf mitt, þar til nú, snúist um að á morgun fer ég í megrun, eða í dag er ég í megrun og allan tímann át ég stöðugt, var hömlaus nartari og hafði sektarkennd.

Í OA fann ég í fyrsta sinn kærleika sem virkaði til að stoppa ofátið. Ég hafði verið að skoða vefsíðu OA frá því í marsmánuði 2001 og hugsaði kannski er þetta eitthvað fyrir mig. Ég mætti svo á minn fyrsta fund í janúar 2002. Þar var fullt af ,,rugluðu” fólki, fólki sem er eins og ég!

Ég var svo heppin að vera gefið fráhald strax og hef verið í fráhaldi síðan. Fráhald er ekki megrun, heldur að borða skipulega máltíð 3-4 sinnum á dag einu sinni á diskinn. Með því að rjúfa fráhaldið fjórum sinnum á dag og borða án sektarkenndar, í mínu tilfelli venjulegan heimilismat, á ég í dag gott líf.

Líf í ofáti er ömurlegt, það snýst um einangrun frá öðrum, sífelldan ótta við vægðarlausa gagnrýni annarra. Staðreyndin er hins vegar sú að maður er sjálfum sér verstur, það ert þú sjálfur sem segir: Þú ert vonlaus, þú hefur engan viljastyrk. Í OA lærir maður að þetta snýst ekki um viljastyrk heldur það að setja fráhald frá mat í forgang, einn dag í einu. Þetta hefur tekist í 5 mánuði!

Mig skorti ekki viljastyrk þegar: Ég svelti mig í 70 daga. — Þegar ég fór í hvern megrunarkúrinn á fætur öðrum. Ég gat þetta allt á hnefanum en ég vissi ekki þá að ég væri með sjúkdóm, matarfíkn, og það er hægt að ná bata með hjálp OA. Það er hins vegar ekki til lækning en meðan ég mæti á fundi og nota OA kerfið er ég heilbrigð, einn dag í einu.

Líf án sektarkenndar og vanlíðunar, er mikil gjöf og fyrir það er ég þakklát.

OA gaf mér nýtt líf

Þegar ég kom fyrst inn á fund hjá OA fyrir rúmum 21 mánuði síðan var ég skíthrædd. Ég var þá 27 ára, 135 kg (er166 cm) og búin að fá gallsteina vegna neyslu á óhollum mat og sælgæti. Ég var búin að prófa alls konar megrunarkúra og heilsuátök en gafst alltaf upp. Ég féll alltaf í ofát því að ég vildi “vera góð” við sjálfa mig því að ég hafði verið svo dugleg. Og þó að ég hafi einstaka sinnum misst nokkur kíló komu þau alltaf aftur.

Ég var farin að einangra mig, vildi helst bara borða í einrúmi og faldi oft sælgætisbréf og annað slíkt til að fólk sæi ekki hvað ég var að borða. Ég var að borða yfir tilfinningar mínar, t.d. ef ég var reið, þreytt, sorgmædd eða einmana fannst mér best að borða til að láta mér líða betur. Líkamlegt ástand mitt var ekki gott, fékk reglulega mígrenishausverki og átti erfitt með að hreyfa mig.

Þegar ég prófaði að fara á OA fundi fann ég fólk með samskonar vandamál og ég og það tók vel á móti mér. Þetta fólk hafði fengið lausn við þessu vandamáli. Þegar þau sögðu frá sínum reynslusögum, gat ég alltaf fundið sjálfa mig í þeim. Áður en ég vissi af voru þessir fundir farnir að hjálpa mér og ég komst í svokallað fráhald.

Ég var farin að einangra mig, vildi helst bara borða í einrúmi og faldi oft sælgætisbréf og annað slíkt til að fólk sæi ekki hvað ég var að borða. Ég var að borða yfir tilfinningar mínar, t.d. ef ég var reið, þreytt, sorgmædd eða einmana fannst mér best að borða til að láta mér líða betur. Líkamlegt ástand mitt var ekki gott, fékk reglulega mígrenishausverki og átti erfitt með að hreyfa mig.

 

Ég fékk mér trúnaðarkonu og fór að vinna reynslusporin 12. OA samtökin bjóða upp á andleg leið og þessi leið hefur breytt lífi mínu. Ég hef misst 25 kg en það er ekki það besta, mér líður miklu betur á allan hátt, andlega, tilfinningalega og líkamlega. Mígrenishausverkjunum hefur fækkað til muna, ég finn ekki fyrir gallsteinunum og á auðveldara með að hreyfa mig.

Ég hef öðlast meira sjálfsálit og er farin að geta horft í spegil án þess að hugsa bara “æj bara ef ég væri með aðeins minni maga, bara ef ég væri með minni undirhöku ….”. Fyrir mér er þetta algjört FRELSI og til þess að halda þessu frelsi þarf ég að mæta reglulega á fundi og vinna prógrammið sem OA leiðin býður upp á. Ég dæmi mig ekki lengur fyrir að vera aumingi sem hefur engan viljastyrk. Ég veit núna að ég er með sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum, EINN DAG Í EINU.

Saga matarfíkils

í OA samtökunum þarf enginn að koma fram undir nafni og því birtist þessi frásögn nafnlaust. Ég er matarfíkill sem lýsir sér þannig að ég er vanmáttug þegar kemur að mat, sérstaklega sykri og skyndibitafæði. Mjög ung fór ég að borðar yfir tilfinningar sem ég átti ekki að sýna né tjá og helst ekki hafa. Snemma fór ég að vera óheiðarleg með mat, fór að fela hann fyrir öðrum, jafnvel stela og ljúga. Ef ég byrjaði að borða þá gat ég ekki hætt og við tók mikil skömm og sektarkennd. Ég fór að borða yfir þær tilfinningar svo þetta varð yfirleitt vítahringur og stanslaust át.

Á mánudögum ætlaði ég að hætta að borða svona og taka mig á. Það tókst stundum í nokkra daga en yfirleitt aðeins í nokkra klukkutíma. Einu sinni veðjaði ég við pabba minn að ég gæti misst aukakílóin og lagði hestinn minn undir en svo fór að ég féll í ofát og hefði átt að missa hestinn en pabbi fylgdi því sem betur fer ekki eftir.

Ég flutti að heiman mjög ung með son minn og þá versnaði átið. Ég þyngdist mikið og var komin með um 40 aukakíló. Ég fór að vinna á vinnustað þar sem heilsan var í fyrirrúmi og ég breytti um lífsstíl og mataræði. Ég skráði niður allt sem ég borðaði og náði að léttast um 40 kg og leið mjög vel. Ég hélt að ég væri komin með þetta og ætlaði aldrei aftur að verða svona feit.

Það gengur á ýmsu í lífinu og samhliða því ágerðist sjúkdómurinn og ég fór aftur að borða yfir tilfinningar. Smátt og smátt þyngdist ég og var aftur orðin yfir 100 kíló sem er mikið fyrir konu sem er 155 cm á hæð. Ég vissi að ég yrði að vinna í sjálfri mér og las því allskonar sjálfshjálparbækur og reyndi allt sem ég gat að verða heil en alltaf hafði fíknin betur. Ég var orðin mjög kvíðin og þunglynd og farin að nota áfengi sem kvíðalyf en sem betur fer fékk ég leiðsögn frá mínum æðri mætti og var leidd í áfengismeðferð og þar kviknaði von. Ég fór að leita mér hjálpar hjá AA samtökunum og fékk lausn við áfengisfíkninni. Fór að vinna í sjálfri mér og fór í andlegt ferðalag með 12 sporum AA.

Mér leið miklu betur en ég fór úr einni fíkn í aðra, því matarfíknin blómstraði og ég fitnaði. Ég var leidd í önnur 12 spora samtök þar sem tekist er á við matarfíkn. Þar var allt vigtað og mælt og þar lærði ég að ofát er sjúkdómur sem hægt er að fá bata frá. Einn dag í einu, alveg eins og með áfengisfíknina. Ég lærði að borða grænmeti, gat borðað eins og venjuleg manneskja og kílóin hrundu af mér. Í sporavinnunni komst ég að því að ég var mjög meðvirk og fékk leiðsögn um að fara í CODA samtökin. Þar hófst enn á ný andleg vinna og betri tenging við æðri mátt sem ég leitaði meir og meir til, í formi hugleiðslu og bæna.

Þunglyndið sem ég vonaðist til að færi eftir að ég hætti að drekka hélt áfram að draga mig niður á vonda staði. Ég fór í sama gamla farið og át á mig öll aukakílóin aftur að mestu, rétt slefaði undir 100 kílóunum. Þarna var ástandið á mér ekki gott og ég barðist við sjálfsvorkunina og sjálfsásakanirnar. Ég bað æðri mátt mikið um hjálp sem ég fékk. Ég hitti rétta fólkið á réttum stað í OA samtökunum sumarið 2015 og þar hef ég verið síðan og haldið mig frá sykri og hveiti. Ég fékk þar sponsor sem leiddi mig í gegnum sporin, fékk skilning og stuðning og fór að gefa áfram það sem ég hafði öðlast.

Að fá frí í hausnum frá þráhyggjunni á mat og útliti er mikið frelsi og það hef ég öðlast, einn dag í einu. Ég fór í gegnum langt og erfitt tímabil af þunglyndi á þessu tíma en fékk að vera í fráhaldi sykri og hveiti. Það var mikil gjöf sem ég þakka OA fundum og æðri mætti.

Ég er með örfá aukakíló en er sátt við mig eins og ég er. Ég er mannleg og geri mistök og stundum borða ég yfir tilfinningar en hef lært að fyrirgefa sjálfri mér og held alltaf áfram einn dag í einu, þakklát og æðrulaus. Ég iðka mikið af þakklætisbænum en Æðruleysisbænin er mín uppáhalds og hún er svona:

Guð gefi mér æðruleysi til þess að

sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

Og vit til að greina þar á milli

 

Er OA fyrir þig?

Aðeins þú getur fundið út úr því hvort OA sé fyrir þig. Enginn annar getur tekið þá ákvörðun fyrir þig. Við sem erum núna í OA höfum fundið leið sem hjálpar okkur að lifa án þess að borða yfir okkur. Við trúum að matarfíkn sé stigvaxandi sjúkdómur sem hægt er að ná bata frá á svipaðan hátt og hægt er að ná bata frá alkóhólisma og öðrum sjúkdómum. Mundu að það er engin skömm í því að viðurkenna að þú eigir við vandamál að stríða. Það sem skiptir mestu máli er að gera eitthvað í því.

OA loforðið

Ég legg hönd mína í þína og saman getum við gert það sem við gátum ekki gert ein. Vonleysið er horfið og við þurfum ekki lengur að treysta á óstöðugan vilja okkar. Nú erum við öll saman og seilumst eftir mætti sterkari okkar eiginn. Er við höldumst í hendur finnum við meiri ást og skilning en okkur gæti dreymt um.

Æðruleysisbænin

Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem  ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli