Reynslusögur

Reynslusögur geta hjálpað okkur að átta okkur á hvort að matarfíkn eigi við um okkur. Lesið í gegnum sögurnar og lærið meira um sjúkdóminn.

OA gaf mér nýtt líf

Þegar ég kom fyrst inn á fund hjá OA fyrir rúmum 21 mánuði síðan var ég skíthrædd. Ég var þá 27 ára, 135 kg (er 166 cm) og búin að fá gallsteina vegna neyslu á óhollum mat og sælgæti. Ég var búin að prófa alls konar megrunarkúra og heilsuátök en gafst alltaf upp. Ég féll alltaf í ofát því að ég vildi “vera góð” við sjálfa mig því að ég hafði verið svo dugleg. Og þó að ég hafi einstaka sinnum misst nokkur kíló komu þau alltaf aftur.

Ég var farin að einangra mig, vildi helst bara borða í einrúmi og faldi oft sælgætisbréf og annað slíkt til að fólk sæi ekki hvað ég var að borða. Ég var að borða yfir tilfinningar mínar, t.d. ef ég var reið, þreytt, sorgmædd eða einmana fannst mér best að borða til að láta mér líða betur. Líkamlegt ástand mitt var ekki gott, fékk reglulega mígrenishausverki og átti erfitt með að hreyfa mig.

Þegar ég prófaði að fara á OA fundi fann ég fólk með samskonar vandamál og ég og það tók vel á móti mér. Þetta fólk hafði fengið lausn við þessu vandamáli. Þegar þau sögðu frá sínum reynslusögum, gat ég alltaf fundið sjálfa mig í þeim. Áður en ég vissi af voru þessir fundir farnir að hjálpa mér og ég komst í svokallað fráhald.

Ég fékk mér trúnaðarkonu og fór að vinna reynslusporin 12. OA samtökin bjóða upp á andlega leið og þessi leið hefur breytt lífi mínu. Ég hef misst 25 kg en það er ekki það besta, mér líður miklu betur á allan hátt, andlega, tilfinningalega og líkamlega. Mígrenishausverkjunum hefur fækkað til muna, ég finn ekki fyrir gallsteinunum og á auðveldara með að hreyfa mig.

Ég hef öðlast meira sjálfsálit og er farin að geta horft í spegil án þess að hugsa bara “æj, bara ef ég væri með aðeins minni maga, bara ef ég væri með minni undirhöku ….”. Fyrir mér er þetta algjört FRELSI og til þess að halda þessu frelsi þarf ég að mæta reglulega á fundi og vinna prógrammið sem OA leiðin býður upp á. Ég dæmi mig ekki lengur fyrir að vera aumingi sem hefur engan viljastyrk. Ég veit núna að ég er með sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum, EINN DAG Í EINU.

Fleiri reynslusögur