Reynslusögur

Reynslusögur geta hjálpað okkur að átta okkur á hvort að matarfíkn eigi við um okkur. Lesið í gegnum sögurnar og lærið meira um sjúkdóminn.

Saga matarfíkils

Ég borðaði yfir tilfinningar mínar

Í OA samtökunum þarf enginn að koma fram undir nafni og því birtist þessi frásögn nafnlaust. Ég er matarfíkill sem lýsir sér þannig að ég er vanmáttug þegar kemur að mat, sérstaklega sykri og skyndibitafæði. Mjög ung fór ég að borðar yfir tilfinningar sem ég átti ekki að sýna né tjá og helst ekki hafa. Snemma fór ég að vera óheiðarleg með mat, fór að fela hann fyrir öðrum, jafnvel stela og ljúga. Ef ég byrjaði að borða þá gat ég ekki hætt og við tók mikil skömm og sektarkennd. Ég fór að borða yfir þær tilfinningar svo þetta varð yfirleitt vítahringur og stanslaust át.

Á mánudögum ætlaði ég að hætta að borða svona og taka mig á. Það tókst stundum í nokkra daga en yfirleitt aðeins í nokkra klukkutíma. Einu sinni veðjaði ég við pabba minn að ég gæti misst aukakílóin og lagði hestinn minn undir en svo fór að ég féll í ofát og hefði átt að missa hestinn en pabbi fylgdi því sem betur fer ekki eftir.

Ég breytti um lífstíl og hélt ég væri komin með þetta

Ég flutti að heiman mjög ung með son minn og þá versnaði átið. Ég þyngdist mikið og var komin með um 40 aukakíló. Ég fór að vinna á vinnustað þar sem heilsan var í fyrirrúmi og ég breytti um lífsstíl og mataræði. Ég skráði niður allt sem ég borðaði og náði að léttast um 40 kg og leið mjög vel. Ég hélt að ég væri komin með þetta og ætlaði aldrei aftur að verða svona feit.

Það gengur á ýmsu í lífinu og samhliða því ágerðist sjúkdómurinn og ég fór aftur að borða yfir tilfinningar. Smátt og smátt þyngdist ég og var aftur orðin yfir 100 kíló sem er mikið fyrir konu sem er 155 cm á hæð. Ég vissi að ég yrði að vinna í sjálfri mér og las því allskonar sjálfshjálparbækur og reyndi allt sem ég gat til að verða heil en alltaf hafði fíknin betur. Ég var orðin mjög kvíðin og þunglynd og farin að nota áfengi sem kvíðalyf en sem betur fer fékk ég leiðsögn frá mínum æðri mætti og var leidd í áfengismeðferð og þar kviknaði von. Ég fór að leita mér hjálpar hjá AA samtökunum og fékk lausn við áfengisfíkninni. Fór að vinna í sjálfri mér og fór í andlegt ferðalag með 12 sporum AA.

Mér leið miklu betur en ég fór úr einni fíkn í aðra, því matarfíknin blómstraði og ég fitnaði. Ég var leidd í önnur 12 spora samtök þar sem tekist er á við matarfíkn. Þar var allt vigtað og mælt og þar lærði ég að ofát er sjúkdómur sem hægt er að fá bata frá. Einn dag í einu, alveg eins og með áfengisfíknina. Ég lærði að borða grænmeti, gat borðað eins og venjuleg manneskja og kílóin hrundu af mér. Í sporavinnunni komst ég að því að ég var mjög meðvirk og fékk leiðsögn um að fara í CODA samtökin. Þar hófst enn á ný andleg vinna og betri tenging við æðri mátt sem ég leitaði meir og meir til, í formi hugleiðslu og bæna.

Ég hitti rétta fólkið á réttum stað í OA samtökunum

Þunglyndið sem ég vonaðist til að færi eftir að ég hætti að drekka hélt áfram að draga mig niður á vonda staði. Ég fór í sama gamla farið og át á mig öll aukakílóin aftur að mestu, rétt slefaði undir 100 kílóunum. Þarna var ástandið á mér ekki gott og ég barðist við sjálfsvorkunina og sjálfsásakanirnar. Ég bað æðri mátt mikið um hjálp sem ég fékk. Ég hitti rétta fólkið á réttum stað í OA samtökunum sumarið 2015 og þar hef ég verið síðan og haldið mig frá sykri og hveiti. Ég fékk þar sponsor sem leiddi mig í gegnum sporin, fékk skilning og stuðning og fór að gefa áfram það sem ég hafði öðlast.

Að fá frí í hausnum frá þráhyggjunni á mat og útliti er mikið frelsi og það hef ég öðlast, einn dag í einu. Ég fór í gegnum langt og erfitt tímabil af þunglyndi á þessu tíma en fékk að vera í fráhaldi frá sykri og hveiti. Það var mikil gjöf sem ég þakka OA fundum og æðri mætti.

Ég er með örfá aukakíló en er sátt við mig eins og ég er. Ég er mannleg og geri mistök og stundum borða ég yfir tilfinningar en hef lært að fyrirgefa sjálfri mér og held alltaf áfram einn dag í einu, þakklát og æðrulaus. Ég iðka mikið af þakklætisbænum en Æðruleysisbænin er mín uppáhalds og hún er svona:

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.

 

Fleiri reynslusögur